fbpx

“Það var ekki fyrir hvítan mann að sigra” -Haukur Einarsson

5. umferð hefur nú verið lokin í Íslandsmeistaramótinu í torfæru. Keppnin átti sér stað í gryfjunum við fellsendaveg við rætur Akrafjalls. Strax eftir að 4. umferð lauk fóru fróðir menn að reikna út að í 5. umferð gæti Atli Jamil tryggt sér Íslandsmeistara titilinn 2018. En til þess yrði hann að keyra eins og herforingi, sem hann gerir yfirleitt og svo að helstu keppinautar hans, Þór Þormar Pálsson og Ingólfur Guðvarðarson yrðu að vera neðarlega á stigatöflunni.

Það varð óvæntur snúningur í keppninni strax í annarri braut í sérútbúnum flokki. Haukur Viðar Einarsson á Heklu var fyrstur í 2. braut, en brautin var krefjandi bæði fyrir bíl og ökumann. En fyrir ákveðinn ökumann eins og Hauk var bara eitt að gera. Það var að standa bílinn og KOMAST UPP! Og auðvitað gerði hann það! Ekki bara náði hann að klífa upp enda barðið heldur var hann sá eini sem kláraði brautina með 350 stig fyrir lengd og aðeins 30 refsistig. Sá árangur varð til þess að hann náði 30 stiga forskoti á Hermann Sigurgeirsson á Kubb og náði að halda því til enda.

Úrslit eftir æsispennandi 6 brautir voru þau að Haukur endaði fyrstur með 1460 stig alls, Geir Evert Grímsson í öðru eftir frábæran akstur í síðustu þrem brautum með 1437 stig og svo Þór Þormar Pálsson í þriðja með 1407 stig. Atli Jamil var í því fjórða með 1403 stig.

Í götubíla flokki var það Steingrímur Bjarnason (Steini) sem tryggði sér þriðja gullið í þessu Íslandsmeistaramóti. Rétt eins og daginn áður var akstur hans yfirvegaður og ákveðinn sem skilaði sér í stigatöflunni. Strax í 1. Braut náði Steini í 60 stiga forskot á keppninauta sína og með hverri braut jók hann forskotið. Í enda dags var hann Steini kominn með 204 stiga forskot á Ívar Guðmundsson á Kölska (1526 stig) sem lenti í öðru en í þriðja var það Snæbjörn Hauksson á Þeyting með 1359 stig.

Næsta umferð Íslandsmótsins verður haldin á Akureyri þann 18. Águst nkm. Þar munum við sjá baráttu sem við höfum ekki séð í 5 ár. Síðustu Íslandsmeistarar hafa ávallt tryggt sér titilinn fyrir síðustu umferð. En í ár er það ekki fyrr en síðustu umferð lýkur. Atli Jamil leiðir Íslandsmeistaramótið eins og er með alls 79 stig. Þór Þormar er næstur með 74 stig og hann Ingólfur í þriðja með 61 stig.

Til þess að Atli nái titlinum þarf hann að vera í 1. eða 2. sæti á Akureyri. Ef hann lendir í 3. og Þór Þormar lendir í 1. þá eru þeir jafnir til stiga. En þá er reglan svo hljóðandi:

“Verði tveir eða fleiri þátttakendur jafnir að stigum þá vinnur sá er oftar hefur náð fyrsta sæti, öðru sæti og svo framvegis. Verði þeir enn jafnir eftir þetta þá sigrar sá sem hefur besta árangur í síðasta móti. Sé enn jafnt skal farið í næsta mót á undan og svo framvegis.”

Þannig að Þór myndi enda sem Íslandsmeistari. En verði Þór ekki í 1. sæti þarf hann að vera a.m.k vera 4 sætum ofar en Atli (eða 6 stigum fyrir ofan) til að ná titlinum. En til að Ingólfur nái Íslandsmeistara titli þarf Atli að vera í 10. sæti eða neðar og Þór 7. eða neðar.

Það getur allt gerst! Torfærukeppnir hafa ekki verið jafn spennuþrungnar í mörg ár! Frábær helgi að baki! Við þökkum Torfæruklúbb Suðurlands fyrir æðislega keppni. Vel heppnuð helgi að baki!

Vonum að sjá sem flesta á 6. og seinustu umferð Íslandsmeistaramótsins í torfæru þann 18. Águst á Akureyri!