Torfærubíllinn Katla Turbo er Eldhugi kvöldsins, en saga Kötlu nær yfir þrjátíu ár. Bíllinn er 1972 árgerð af “golden brown” Ford Bronco.
Guðbjörn Grímsson, betur þekktur sem Bubbi keypti Kötlu upprunalega sem ferðabíl. Ferðabíllinn breyttist fljótlega í torfærubíl og hefur Bubbi keppt á henni ásamt fleiri ökumönnum í áraraðir. Katla hefur einnig verið að freista gæfunnar á erlendri grundu og er nýkomin heim frá Bandaríkjunum þar sem hún keppti á stóru torfæru móti.
Katla hefur verið í stöðugri þróun og er skemmtilegt að segja frá því að það er einungis einn partur í öllum bílnum sem er 1972 árgerð. “Þegar mest á reynir í undirbúningi fyrir stórmót hafa verið 27 manns að vinna í henni, þakklætið er gríðarlegt” segir Bubbi í bráðskemmtilegu viðtali.
Fylgist með ótrúlegri sögu Kötlu í alíslenska torfæru sportinu þar sem menn þurftu hreinlega að finna upp hjólið til að ná sem bestum árangri.